Í Vestur-Skaftafellssýslu tileinkuðu menn sér þekkingu um rafmagn fyrr en víðast á Íslandi. Þar voru menn sem gátu sett upp rafstöðvar. Þeir kunnu að reikna út fall vatnsins, búa til uppistöðulón og stíflur, byggja rafstöðvarhús og útvega rör, rafbúnað og raflagnir, jafnt utanhúss sem innan. Og það sem er merkilegast; að þeir smíðuðu sumar túrbínurnar líka. Þeir sem mest unnu að byggingu rafstöðva í Skaftárhreppi var frumkvöðullinn Bjarni í Hólmi og Svínadalsbræðurnir Eiríkur og Sigurjón Björnssynir. Þessir þrír unnu mikið saman í smiðjunni í Hólmi. Sigfús Vigfússon á Geirlandi sá um byggingu rafstöðvar á Geirlandi og víðar um landið. Efnið í túrbínurnar fengu mennirnir úr strönduðum skipum á Meðallandsfjörunum. Nokkrar þeirra rafstöðva sem þessir menn settu upp eru enn í notkun.
Fyrsta rafstöðin í Skaftárhreppi var sett upp í Þykkvabæ 1913 og var það með önnur rafstöðin í sveit á Íslandi. Það var Mýrdælingurinn Halldór Guðmundsson sem stýrði því verki en með honum var líka Meðallendingurinn Eiríkur Ormsson sem seinna stofnaði Bræðunir Ormsson og var alla tíð Skaftfellingum innan handar með ýmsa þá hluti sem vörðuðu rafmagn.[2] Bjarni Runólfsson fylgdist með uppsetningu stöðvarinnar og virðist sem hann hafi þá ákveðið að smíða sína eigin rafstöð og það gerir hann næstu árin.
Á myndunum er fjölskyldan í Þykkvabæ: Halla Einarsdóttir með f.v. Sigurlaugu, Elínu og Þórarni. Einar er við hlið hennar og bóndinn Helgi Þórarinsson á litlu myndinni.
Bæirnir eru f.v. Þykkvibær, Hólmur og Geirland.
Rafstöðina setti Bjarni upp í Hólmi 1921 og hafði hann einnig smíðað túrbínuna. Siggeir á Klaustri hafði pantað tvö eintök af bók um smíði rafstöðva og fékk Bjarni annað eintakið og seinna fékk Sigurjón Björnsson hitt eintakið. (3) Eina sem Bjarni hafði til að styðjast við var þessi bók: Lommebog for Mekanikere, sem skrifuð var í Danmörku af Peter Lobben en Bjarni hefur verið búinn að gera mikið áður en hann fékk bókina því hún kemur út 1921. Bókin var á dönsku og var það eiginkonan Valgerður Helgadóttir frá Þykkvabæ sem þýddi textann um leið og mennirnir fundu út hvernig ætti að smíða rafstöð með öllu tilheyrandi. Í Hólmi var útbúin fullkomin smiðja og verkfæri smíðuðu menn um leið og þeir þurftu á þeim að halda.
Margir aðrir sem ekki eru nafngreindir hér unnu við að ná í járn á fjörurnar til smíðanna og undirbúning, flutning og uppsetningu rafstöðvanna. Efnið var sótt á Meðallandsfjörur á veturna, helst þegar ís var yfir. Til að komast á fjöruna varð að fara yfir Eldvatnið með dragferju sem var hjá Syðri-Fljótum. Ferjan var handsnúin og var það erfitt verk því þarna var allnokkur straumur og oft þungt hlass sem átti að flytja. Sveinbjörg Ásmundsdóttir var bóndi á Syðri-Fljótum og ferjumaðurinn. Voru margir undrandi á hvað hún var sterk og lagin við að koma ferjunni yfir ána.
Á myndunum hér fyrir ofan má sjá fólk við ullarþvott við rafstöðvarhúsið á Kirkjubæjarklaustri en þar var byggð fyrsta rafstöðin 1922. Á næstu mynd sést skurðurinn vel og var vatnið tekið beint úr fossinum. Á Klaustri er heimarafstöð fyrir nokkur hús í dag. Þriðja myndin er af rafstöðvarhúsinu við Rauðá á Síðu (Eig. HK_RB). Siggeir Lárusson á Klaustri t.v. keypti Lobbann og Eiríkur Ormsson, rafvirkjameistari frá Efri-Ey var viðstaddur þegar rafstöðin var sett upp í Þykkvabæ og var svo stöðvarstjóri í Vík í Mýrdal en þar var sett upp stöð 1913.
Sigurjón fjölda rafstöðva og settu upp á bæjum um allt land t.d. á Núpi í Dýrafirði, Þambárvöllum á Ströndum, Flugumýri í Skagfirði, Leifsstöðum í Eyjafirði, Grýtubakka í Suður-Þingeyjarsýslu og víðar. Á þessum tíma var ekki búið að brúa nein vatnsföll fyrir austan og Markarfljótið var ekki brúað fyrr en 1934. Þetta virðist ekki hafa hindrað menn í að ferðast langar leiðir með túrbínur, verkfæri og fleira til að setja upp rafstöðvar. Sigfús á Geirlandi smíðaði túrbínur og setti upp rafstöðvar, mest hér í Skaftárrhreppi en nokkrar annars staðar eins og á Brekku í Mjóafiriði, Víðivöllum í Suður-Þingeyjarsýslu og Ásólfsstöðum í Þjórsárdal. Það kemur á óvart hversu margar rafstöðvar þessum mönnum tókst að setja upp.. Á meðan Bjarni lifði settu hann og bræðurnir frá Svínadal upp 116 rafstöðvar. Þeir smíðuðu einnig flestar túrbínurnar sem voru í þessum rafstöðvum eða 92 talsins. Eftir að Bjarni féll frá 1938 breyttust aðstæður og seinna var stofnaður Smíðaskóli í Hólmi.