Skip to main content
Síða og Fljótshverfisögur

Heyrnleysingjaskóli á Kálfafelli

By January 4, 2020March 27th, 2020No Comments

Skóli fyrir mál-og heyrnarleysingja var starfræktur á Kálfafelli í Fljótshverfi á árunum 1867-1879. Talið er að 19 nemendur hafi stundað þar nám

Páll missti málið

Á Kálfafelli var skóli fyrir mál-og heyrnarleysingja sem Séra Páll Pálsson  (1836 -1890) frá Hörgsdal stofnaði 1867. Páll hafði veikst þegar hann var í Latínuskólanum og missti málið um tíma. Leitaði hann sér lækninga í Danmörku og fékk bót á málleysinu. Gengu ýmsar sögur um að málleysið hefði Páll gert sér upp til að losna við óþægileg mál en vandasamt er að átta sig á hvað er rétt í því máli.

Í Kaupmannahöfn kynntist Páll kennslu fólks sem var málhamlað eða heyrnarskert þar sem hann sótti  Konunglega Málleysingjaskólann.  Eftir að Páll fékk málið í Kaupmannahöfn kom hann til Íslands, lauk námi í guðfræði við Prestaskólann, fór austur og gerðist aðstoðarprestur föður síns í Hörgsdal. Saga þeirra feðga þarfnast nokkurrar skýringa en faðir Páls, Sr. Páll Pálsson í Hörgsdal,  hafði eignast hann utan hjónabands með Guðríði Jónsdóttur  (Magnússonar frá Kirkjubæjarklaustri)  og var pilturinn þá kenndur vinnumanni á Hörgslandi. Seinna skildi Páll við konu sína, giftist Guðríði og ættleiddi son sinn. Hvergi er getið annars en þeim feðgum hafi samið vel en Páll yngri átti í sömu vandræðum og faðirinn, að barna konur utan hjónabands. Talið er að séra Páll hafi eignast börn með tveimur heyrnarlausum stúlkum sem voru nemendur hans og varpar það skugga á brautryðjendastarf  hans í þágu fólks sem átti fáa forsvarsmenn á þessum tíma.

Fyrsti kennari heyrnarlausra á Íslandi

Eftir að séra Páll var vígður prestur hóf hann að kenna heyrnarlausum börnum, skrifaði kennslubækur fyrir mál- og heyrnarlausa og fór þrjá mánuði til að kynna sér kennslu heyrnarlausra í Kaupmannahöfn. Árið 1867 var séra Páll Pálsson skipaður mál – og heyrnleysingjakennari, sá fyrsti  á Íslandi. Hóf hann kennslu sína 1868 en þá var hann á Prestsbakka á Síðu og voru þrír unglingar hjá honum á fyrsta árið.

Séra Páll bjó á Langholti, Kálfafelli og Prestsbakka og var alþingismaður Skaftfellinga 1875-1879 en þar barðist hann ötullega fyrir réttindum þeirra sem voru mál- eða heyrnarlausir. Var liður í þeirri baráttu að koma á skólaskyldu fyrir börnin og veita þeim tækifæri til að stunda nám hér á landi en þurfa ekki að sækja skóla til Danmerkur eins og nokkur börn höfðu gert. Hafði það reynst mörgum þeirra erfitt og tilgangslítið nám og allmörg börn höfðu látist á meðan á þau dvöldu í Danmörku. Skólaskylda 10-14 ára mál- og heyrnarlausra barna á Íslandi var lögfest 1872, 26 árum áður en almenn skólaskylda 10-14 ára barna var lögfest árið 1907. Alls voru 19 heyrnarlaus ungmenni við nám hjá Séra Páli á aldrinum 10-27 ára. Hann fluttist austur að Stafafelli í Lóni 1878 og seinna að Þingmúla á Völlum þar sem hann drukknaði 54 ára að aldri. [1]

Sr. Páll samdi námsefni 

Páll tók saman og fékk útgefið í Kaupmannahöfn  árið 1867; Biblíusögur handa mál-og heyrnarlausum unglingum  og Orðasafn til undirbúnings kennslu mál- og heyrnarleysingjum. Vann Páll með sínu starfi og útgáfu þessara bóka mikið brautryðjandastarf í málefnum fólks sem var mállaust eða heyrnarlaust. [2] Í heimildaskrá sögu Heyrnarlausra er líka ritið: Kristin fræði Lúthers með stuttum útskýringum handa mál-og heyrnar-lausum unglingum á 

[1] Reynir Berg Þorvaldsson. 2010. Saga heyrnarlausra á Íslandi. Félag heyrnarlausra, Rv. s. 13-27

[2] Ingibjörg Ýr Pálmadóttir. 1969. Málleysingjakennsla á Íslandi. Suðri. Bjarni Bjarnason safnaði og gaf út,  Laugarvatni. s. 270-276