Skip to main content
Síða og Fljótshverfisögur

Jón Björnsson rithöfundur

By January 5, 2020April 9th, 2020No Comments

Jón Björnsson, rithöfundur, frá Holti á Síðu.

Jón Björnsson  fæddist 1907  og lést 1994. Jón bjó lengi í Danmörku og skrifaði bækur á dönsku. Þær voru gefnar út víða á Norðurlöndunum, fengu góða dóma og seldust vel. Jón var sonur hjónanna Björns Runólfssonar og Marínar Þórarinsdóttur sem voru bændur í Holti og þar var Jón þar til hann fór til náms.

Á myndinni eru Jón og Gauja (Eig. ABS)

Menningarheimilið í Holti

Í Holti var mikið til af bókum og var mikill áhugi á bókmenntum og fróðleik. Það er ekki ólíklegt að bókmenntaáhuginn á heimilinu hafi átt þátt í því að ungi sveitapilturinn ákvað að verða rithöfundur? Jón nefnir líka í viðtali að hann hafi orðið fyrir áhrifum af dvöl Jóns Trausta í Holti. Var hann þó aðeins þriggja ára þegar Jón Trausti dvaldi þar vetrarlangt, kynnti sér söguslóðir Skaftárelda og skrifaði Sögur af Skaftáreldum.

Bókasafn þeirra hjónanna í Holti Björns og Marínar, sem var komið að hluta til frá foreldrum Björns, þeim Runólfi Jónssyni og Sigurlaugu Vigfúsdóttur var gefið Héraðsbókasafninu á Kirkjubæjarklaustri og má í því finna margar fágætar bækur og merkilegar.

Fjölskyldan í Holti. F.v. Sigrún, Marín, Sigurlaug, Björn, Runólfur og Jón. Siggeir sem var bóndi í Holti mjög lengi var ófæddur þegar þessi mynd er tekin. (Eig. ABS)
Ein af barnabókum Jóns Björnssonar
Eintak af bókinni Máttur jarðar sem Jón hefur sent foreldrum sínum

Ungur fékk hann birtar sögur

Fyrstu sögur Jóns birtust 1930 áður en hann hélt utan til náms í Askov-lýðháskólanum en þangað fór hann til að læra dönsku og lesa bókmenntir með það fyrir augum að verða rithöfundur á danska tungu. Hann taldi fráleitt að það borgaði sig að gerast rithöfundur á Íslandi á kreppuárunum. Í Danmörku dvaldist hann og ritaði mikið fyrir blöð og tímarit, víðsvegar á Norðurlöndunum. Fyrsta skáldsaga Jóns, Jordens magt, sem kom út árið 1942 aflaði höfundi mikilla vinsælda. Bókin Máttur jarðar kom út á íslensku sex árum síðar. Síðan rak hver sagan aðra, alls níu skáldsögur. Jón skrifaði nokkrar unglingasögur þar á meðal Leyndardómur fjallanna, Smyglaranir í Skerjagarðinum, Sonur öræfanna, Steini í Ásdal og Á reki með hafísnum.

Sögulegar skáldsögur

Bækur Jóns eru flestar byggðar á atburðum úr sögu íslensku þjóðarinnar og fjalla margar um dómsmál og yfirgang valdsmanna, íslenskra og danskra, gegn almenningi í landinu. Jón lagði mikið á sig við að afla heimilda og reyna að koma til skila sem réttastri mynd af atburðum og aldarfari. Hér má nefna efni þriggja skáldsagna eftir Jón:

  • Jón Gerreksson kom út á íslensku 1947 og segir Jóni Gerrekssyni sem dönskum manni sem var biskup í Skálholti á 15. öld. Piltar sem fylgdu Jóni fóru með ránum um sveitina þar til bændum blöskraði svo að þeir fóru og sóttu Jón og drekktu honum í Brúará 1633.
  • Skáldsagan Valtýr á grænni treyju kom út 1951 og tveimur árum seinna samdi Jón leikrit upp úr bókinni. Sagan byggir á þjóðsögu af dómsmáli á ofanverðri 18. öld. Bóndi á Fljótsdalshéraði var ákærður fyrir morð og fór sýslumaður offari í málssókninni en allt benti til að bóndinn væri saklaus.
  • Jómfrú Þórdís kom út 1964. Sagan er byggð á frægu sakamáli í Skagafirði í upphafi 17. aldar. Fjallað er um ástamál Jómfrúr Þórdísar og Tómasar mágs hennar. Þórdís sver þess eið að hún hafi ekki verið með Tómasi en stuttu síðar eignast hún sveinbarn svo ljóst var að um meinsæri var að ræða. Þórdísi var drekkt í Drekkingarhyl 1618, dæmd til þess samkvæmt Stóra-dómi. Fjallar sagan að hluta til um átökin milli Íslendinga og Dana á þessum tíma.
  • Ein bóka Jóns, Dauðsmannskleif, er safn þátta. Einn þátturinn segir frá Leiðólfi á Á og viðureign hans við Una danska.

Jón sá þegar Guðmundur Kamban var drepinn

Jón Björnsson var samtíða Gunnari Gunnarssyni og Guðmundi Kamban í Danmörku þegar landið var hernumið af Þjóðverjum. Þeir fylgdust með úr fjarlægð þegar Íslendingar stofnuðu lýðveldi og slitu sambandi við Dani. Í lok stríðsins ákvað Jón að fara heim til Íslands. Stuttu áður en hann fór heim var Guðmundur Kamban, vinur hans, skotinn til bana. Hafði sá atburður mikil áhrif á Jón og talar hann um í viðtölum að hann hafi ekki verið sáttur við opinbera skýrslu um tildrög þess að Kamban var myrtur og taldi íslenskum fjölmiðlum hafa farist skammarlega í umfjöllun sinni um málið.

Þýddi sjálfur bækurnar yfir á íslensku og dönsku

Eftir að Jón kom heim þýddi hann bækur sínar á íslensku og seinna þýddi hann skáldsögurnar sem hann skrifaði á íslensku yfir á dönsku. Bækur Jóns seldust vel bæði í Danmörku og á Íslandi og voru þýddar á sænsku og norsku. Jón starfaði í nokkur ár sem ritstjóri Heima er bezt, var bókavörður á Borgarbókasafninu og gagnrýnandi á Morgunblaðinu. Hann hefur ekki verið mikð umtalaður rithöfundur á Íslandi þrátt fyrir að bækur hans hafi selst vel, verið þýddar á mörg tungumál og fengið góða dóma. Kom þar margt til en eflaust voru einhverjir Íslendingar sem áttu bágt með að fyrirgefa Jóni að flytjast til Danmerkur og skrifa á dönsku.[1]

Sagan Bergljót gefur mynd af því hvernig menn héldu að Skaftárgljúfrið hafi litið út fyrir Skaftárelda

Sagan gerist í Skaftárgljúfri

Í skáldsögunni Bergljót er sögusviðið nærri heimasveit Jóns; Skaftárgljúfrið og Síðan. Bergljót er framhald sögunnar Eldraunin þar sem aðalpersónan Bergljót er dæmd til að brennast á báli fyrir galdra en sagan gerist á 16. öld. Bergljót sleppur við refsingu þegar íslenskir valdsmenn neita að framselja hana og seinna er hún sýknuð. Danskur valdsmaður sem hafði dæmt hana á bálið fellur í ónáð hjá skipuðum höfuðsmanni á Bessastöðum, er stungið í dýflissu en starfsmaður á Bessastöðum sleppir honum. Á flóttanum tvinnast saman örlög hans og stúlkunnar og þau flýja saman ásamt föður hennar upp á fjöll. Þau stefna austur í Skaftafellssýslu þar sem þau eiga von á að geta fengið aðstoð en menn höfuðsmannsins verða á undan þeim. Þau hitta þá pilt á fjöllunum sem hjálpar þeim að dyljast í Skaftárgljúfri. Skaftárgljúfrið fylltist af hrauni í Skaftáreldunum en það var fyrir innan Skaftárdal, ekki langt frá Holti þar sem Jón ólst upp. Líklegt er að Jón hafi heyrt vangaveltur manna um hvernig gljúfrið hafi verið en þegar Jón er að alast upp í Holti var margt fólk sem kunni sögur af lífinu fyrir eld og af eldinum sjálfum. Jón teiknar upp nokkuð nákvæma mynd af gljúfrinu og er auðvelt að sjá það fyrir sér eftir lestur bókarinnar. Sagan fjallar um yfirgang valdsmanna gagnvart almenningi, undirgefni Íslendinga gagnvart Dönum, óréttláta dóma, galdramál, sekt, sjálfstæði, ástina og margt fleira. Þrátt fyrir að þessar bækur séu nú komnar til ára sinna og börn síns tíma er gaman að lesa þær og þá sérstaklega bókina Bergljót sem, kom út 1954.

Sögur af Skaftáreldum eru tvær bækur og heitir sú fyrri Holt og Skál og eru frásagnir mjög myndrænar af því þegar þeir bæir eyddust.
Bæjarstæðið í Holti er rétt hjá Holtsborginni. Fyrir Skaftárelda stóðu bæirnir fyrir neðan brekkuna en vatn og hraun eyðilagði bæjarstæðið og varð að flytja öll hús upp í brekkuna. Það er tilkomumikið að horfa yfir hraunið frá Holti. (Ljósm. ABS)

[1] Viðtal í Morgunblaðinu 26. sept 1976. s. 22-23. Það er Ingimar Erlendur Sigurðsson sem ræðir við Jón Björnsson. Viðtal við Jón Björnsson í Sunnudagsblaði Tímans 25. tbl.1966 s. 590-593 og 597.

[2] Jón Björnsson. 1954. Bergljót. Bókaútgáfan Norðri, Akureyri. s. 145-146