Kirkjubæjarklaustur, takið eftir loftskeytamöstrunum.
Efri myndina tók Jón Sen en neðri myndin er tekin á hlaðinu af óþ. ljósm.en myndin er í eigu GSS.
Árið 1905 tóku Lárus Helgason, bóndi og alþingismaður (1873-1941) og Elín Sigurðardóttir (1871-1949) jörðina Kirkjubæjarklaustur á leigu og keyptu hana árið 1908. Hefur jörðin síðan verið í eigu afkomenda Lárusar og Elínar.
Það var ekkert þéttbýli í sveitunum milli sanda langt fram eftir tuttugustu öldinni. Á sumum bæjum var margbýlt en hvergi var neitt raunverulegt þorp fyrr en byggðist upp á Kirkjubæjarklaustri. Það tókst vel til að smíða rafstöð á Klaustri og hefur það eflaust haft áhrif á hversu margt byggðist upp þar í kjölfarið. Á Klaustri var byggt gistihús sem þjónaði ferðamönnum og seinna kom verslun, sláturhús og frystihús sem allt þjónaði sveitunum. Áætlunar ferðir voru austur á Klaustur og um tíma var áætlunarflug.
Hjónin á Klaustri og Klausturbræður
Þau Lárus og Elín voru bæði framfarasinnuð og samtaka um að byggja og bæta jörðina á Kirkjubæjarklaustri. Mannmargt var í bænum; vinnufólk, foreldrar Elínar, móðir Lárusar og annað eldra fólk, synirnir fimm sem ávallt voru kallaðir Klausturbræður og nokkur uppeldisbörn. Ferðamenn komu á Klaustur og eftir því sem samgöngur bötnuðu fjölgaði ferðafólkinu Lárusi var umhugað um allar framfarir og beitti sér fyrir ýmsum málum en eitt af því sem skilaði þessum sveitum betri afkomu var að Lárus keypti borgfirska hrúta til að kynbæta féð. Var fallþungi dilka eftir það mun meiri en áður hafði verið. Má nærri geta að það hefur skipt miklu máli í sveit þar sem sauðfjárrækt var lífsviðurværi allra heimila.
Lárus var alþingismaður Skaftfellinga fyrir framsóknarflokkinn 1922-1923 og 1927-1933 og sinnti fjölda annarra trúnaðarstarfa sem sagt er frá í ævisögu hans, Lárus á Klaustri sem skrifuð var af Þórarni Helgasyni frá Þykkvabæ í Landbroti. Í þeirri bók er reyndar að finna mjög margt um atvinnumál, samgöngur og sögu sveitarinnar og er hún því í senn ævisaga og héraðssaga. Fjarvistir Lárusar hafa kallað á að Elín stýrði öllu heima við á meðan. Staðurinn óx vegna nýrra atvinnuhátta en líka vegna þess að Lárus og Elín vildu fá þangað ýmsa starfssemi. Þéttbýlið myndaðist á löngum tíma og þar voru sum spor áhrifaríkari en önnur.
Fjölskyldan á Klaustri. Húsbóndinn er ekki heima. Í efstu röðinni lengst t.h.er Sigurður frá Breiðabólsstað, faðir Elínar. Önnur frá vinstri í fremstu röðinni er Gyðríður, móðir Elínar og við hlið hennar er Elín í dökkum peysufötum. (Eig. EAV)
Rafstöð reist 1922
Það er vart hægt að ímynda sér í dag hversu mikil áhrif rafmagnið hefur haft á alla vinnuaðstöfu og líf fólksins á Klaustri. Þessi rafstöð var sú fjórða í sýslunni. Helgi, elsti Klausturbróðirinn, segir svo frá:
…var hún fyrsta stöðin í sýslunni, sem gerð var með allmikilli fallhæð. Hinar þrjár fyrstu stöðvarnar voru með 2-4 metra fallhæð, en þessi hafði 33 metra fallhæð. Stöðin var að stærð 12 hestöfl (8 kílówatts). Efni í stöðina útvegaði rafmagnsverzlun í Reykjavík. Það varð dýrt, einkum vatnsvélin (túrbínan), sem kostaði um 6 þúsund krónur með gangstilli (regúlatúr). Uppsett kostaði stöðin um 18 þúsund krónur. Hún var svo stór, að hún átti að nægja til ljósa, suðu og upphitunar fyrir heimilið, enda gerði hún það að mestu. Uppsetningu stöðvarinnar annaðist Guðmundur Einarsson, stöðvarstjóri í Vík. [1]
Rafstöðin breytti lífi fólksins, gaf því ljós, rafmagnseldavél og hita í húsin. Húsið sem smíðað var yfir fyrstu rafstöðina stendur enn við Fossána (lækinn) og vekur athygli flestra sem fara hjá. Var það seinna innréttað og breytt í gistiherbergi og leigt út frá Gistiheimilinu á Klaustri. Kemur enn fólk á Klaustur sem á góðar minningar um gistingu í þessu litla húsi við lækinn.
Rafstöðin var síðan stækkuð 1930 en 1942 smíðaði Sigurjón Björnsson frá Svínadal túrbínu sem var 110 kW. Fallhæð þeirrar stöðvar er 77 metrar. Gengur hún enn og nýtist íbúum í nokkrum húsum á Klaustri, þar á meðal Minningarkapellunni. Sigurjón var ein þeirra sem vann með Bjarna í Hólmi að ótrúlegri rafvæðingu í sveitunum á milli sanda og víðar.
Stór fjölskylda hefur þurft mikinn mat. Valdimar Lárusson með prikið. (Eig. JJ)
Klausturbræður. F.v. Valdimar, Helgi, Siggeir, Júlíus og Bergur við hlið móður þeirra, Elínar. (Eig. EAV)
Elín með elsta barnabarnið, Auði Helgadóttur. (Eig. EAV)
Elín og Lárus með syni Siggeirs og Soffíu; Lárus og Kristin á handlegg afans. (Eig. LS)
Lárus heldur í tauminn en á hestinum sitja Elín Frigg Helgadóttir og Lárus Siggeirsson. (Eig. EAV)
Lárus bóndi gengur hjá þar sem Siggeir er að járna. (Eig. EAV)
Rafstöðvarhúsið sem var byggt 1922 var fallegt og vandað og stendur enn. Eftir að túrbínan var flutt í viðbyggingu hjá sláturhúsinu var litla húsið við lækinn notað fyrir ferðafólk. (Eig. GSS)
Loftskeytastöð, pósthús, símstöð
Loftskeytastöð var sett upp á á Klaustri 1922. Með stöðinni fylgdu mikil möstur sem voru þar fram á áttunda áratuginn. Siggeir, einn Klaustrubræðra, fór suður til Reykjavíkur í Loftskeytaskólann til að læra á tækniundrið. Hafði Siggeir eftirlit með stöðinni í mörg ár. Yngri bræðurnir, Valdimar og Bergur, lærðu fræðin síðar og störfuðu báðir sem loftskeytamenn hjá Landhelgisgæslunni og seinna á Klaustri. Valdimar sá einnig um rekstur pósthússins og símstöðvarinnar en póstþjónusta fluttist á Klaustur 1930 en hafði verið á Prestbakka frá 1904. Símstöð var sett upp á Klaustri 1929 en það ár náðist sá áfangi að lokið var símalögnum frá Höfn í Hornafirði til Víkur í Mýrdal. En þó komið væri símasamband við Klaustur tók það tvo áratugi að koma símasambandi heim á alla bæi í sveitunum milli sanda. [2]
I am text block. Click edit button to change this text. Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit. Ut elit tellus, luctus nec ullamcorper mattis, pulvinar dapibus leo.
Áætlunarferðir á Klaustur
Bergur Lárusson, einn Klausturbræðra, fékk sérleyfi fyrir fólksflutningabíl á Klaustur frá Reykjavík árið 1935. Þá var búið að brúa Markárfljótið og Múlakvísl og leiðin orðin það greiðfær að það tók litlar 13 klukkustundir að aka frá Klaustri til Reykjavíkur, 308 km leið. Seinna tók Siggeir Lárusson við sérleyfinu og rak það í mörg ár. Bergur hafði kynnst ungum manni, Jóni Sen sem síðar varð konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands, og bað hann að útbúa útvarp í áætlunarbílinn, Packard 1929, til að stytta mönnum stundir á leiðinni. Jón tók því vel. Hann hafði alist upp í Kína og var radíóamatör. Þótti útvarpið mikill lúxus því þá voru slík tæki ekki komin í nokkurn áætlunarbíl. Leiddi þetta til ævilangrar vináttu Jóns við Klausturfólkið og þar reisti hann sumarbústað sem fjölskyldan á enn. Jón talaði um það seinna að honum hefðu þótt flutningarnir frá Kína erfiðir og líkaði ekki vel á Íslandi fyrr en hann kynntist þessum stað; Klaustur og Kína urðu hans heimaslóðir. [3]
Kirkjubær I
Siggeir, einn Klausturbræðranna stofnaði nýbýli 1936 út úr landi Kirkjubæjarklausturs og kallaði Kirkjubæ I. Hann og kona hans, Soffía Kristinsdóttir, byggðu síðan íbúðarhús við Gamla bæinn. Hugmyndin í fyrstu var að byggja fleiri burstir og halda þannig útliti gamla burstabæjarins en skilyrði fyrir því að fá lán hjá Nýbýlasjóði var að notuð yrði teikning að húsi sem Nýbýlasjóður skaffaði. Íbúðarhúsið er því tveggja hæða hús mað valmaþaki áfast burstabænum. Mikil synd því fleiri burstir hefðu verið miklu skemmtilegri lausn. Í þessu húsi ólst Erró upp hjá móður sinni og stjúpföður.
Ferðaþjónusta á Kirkjubæjarklaustri
Nú á dögum þykir okkur sjálfsagt að geta keypt mat og gistingu alls staðar þar sem við förum. Á Klaustri var mikill gestagangur alla tíð. Eftir að búið var að brúa Markarfljótið 1933 og Múlakvíslina á Mýrdalssandi 1935 bötnuðu samgöngur mikið frá því sem áður var og þar með jukust ferðir austur yfir Mýrdalssand. [4]
Gestagangurinn á Klaustri varð slíkur að ekki var um annað að ræða en byggja einhverja aðstöðu til að taka á móti fólki. Árið 1938 var hafist handa við að byggja gistihúsið. Gistiherbergi og snyrting á efri hæðinni en geymsla á neðri hæðinni. Gestirnir borðuðu inni í bænum en 1942 var neðri hæð gistihússins breytt í eldhús og borðstofu. Seinna var byggt þvottahús við gistihúsið. Fyrstu árin var ekki opið á veturna en þó var alltaf opnað ef á þurfti að halda svo sem ef strandaði skip eða margt fólk varð veðurteppt í einu. Valdimar Lárusson og kona hans Guðrún Ólafsdóttir ráku gistihúsið til 1950 en þá tóku Siggeir Lárusson og Soffía Kristinsdóttir við og sáu um reksturinn til 1974 að hann seldur til aðila utan Klausturfjölskyldunnar.
Allt þar til veturinn 1994 var þetta eini veitingastaðurinn sem var opinn á Klaustri yfir veturinn. Þarna komu bændur, bílstjórar, verkamenn og ferðamenn, keyptu sér mat og spjölluðu. Herbergin uppi voru pínulítil á okkar mælikvarða í dag, með tveimur mjóum rúmum og litlu borði á milli. Aðeins ein snyrting var frammi á gangi fyrir alla gestina. Gistihúsið stendur enn, óbreytt að utan, en hýsir nú starfsemi Kirkjubæjarstofu og skrifstofuaðstöðu fyrir ýmsa starfsmenn í Skaftárhreppi.
Mynd tekin á hlaðinu á Klaustri. Þar sést merki pósts og síma og svo er bensínstöð á hlaðinu. (Eig. EAV)
Á Klaustri er mikil veðursæld eins og sést á næstu mynd þar sem við sjáum fólk ganga yfir hlaðið. Það eru Ingólfur Magnússon, innanbúðarmaður, sonur hans Magnús og eiginkona Maggí. Lengst til hægri er Elín Sigurðardóttir, húsfreyja á Klaustri. (Eig. LS)
Burstabærinn var byggður 1884 og er eitt elsta hús á Íslandi sem ennþá er búið í. Íbúðarhúsið á nýbýlinu Kirkjubæ I reistu þau Siggeir (maðurinn á myndinni) og Soffía 1936. (Eig. EAV)
Þrír Klausturbræðranna, Siggeir, Valdimar og Bergur lærðu til loftskeytamanns og var loftskeytastöð fyrir utan burstabæinn. Hér er Valdimar, loftskeytamaður, með skipsfélögum sínum á strandferðaskiptinu Súðinni. (Eig. EAV)
Líf og fjör fyrir utan gistihúsið á Klaustri. Prestssetrið í baksýn. (Ljósm. Jón Sen)
Verslun
Verslun Kaupfélags Skaftfellinga á Klaustri opnaði 1937. Siggeir Lárusson sá um að afgreiða allar vörur og Valdimar, bróðir hans, hljóp í skarðið eftir þörfum. Opnunartíminn var þegar menn þurftu á að halda. Fljótlega varð húsnæðið of lítið fyrir verslun og þá var byggt húsið við hliðina. Verslunin stækkaði og var ráðinn útibússtjóri 1946 og byggð íbúð fyrir hann og fjölskyldu hans á hæðinni fyrir ofan búðina. Klausturbræður hættu þar með afskiptum af versluninni.
Seinna vantaði íbúð fyrir annan starfsmann og var þá byggð risíbúð ofan á húsið. Árið 1960 var reist vöruskemma, pakkhúsið sem nú er vinnsluhús Klausturbleikju. Núverandi húsnæði verslunarinnar á Klaustri var reist 1976. Þá hafði hringvegurinn breytt mjög miklu í sveitinni. Skaftárhreppur var orðinn hluti af hringveginum en ekki endastöð eins og áður hafði verið.
Sláturhús og frystihús
var reist af Sláturfélagi Suðurlands á Klaustri 1942. Bjarni Runólfsson hafði reist frystihús í Hólmi 1936 en féll frá tveimur árum síðar. Bjarni hafði í samstarfi við Kaupfélagið ætlað að byggja sláturhús í Hólmi en entist ekki aldur til þess. Eftir að hann lést var ákveðið að reisa sláturhúsið á Klaustri og flytja frystivélarnar þangað. Kom það ekki síst til af því að þar var rafstöð sem hægt var að stækka þannig að hún gæti þjónað sláturhúsinu og frystihúsinu. Sláturhúsið og frystihúsið var mikil breyting til batnaðar í héraðinu. Bændur fengu hæsta mögulega verð fyrir afurðirnar, stutt var að fara með fé til slátrunar, bændur og búalið fékk vinnu á haustin við slátrunina og heimilin gátu fengið leigð hólf til að geyma kjöt í frystihúsinu.
Lárus Helgason tók þátt í uppbygginu sláturhússins á Klaustri en féll frá 1941 og náði því ekki að sjá fjárhópana renna inn á Klaustur til slátrunar. Synir hans tóku við og héldu áfram framkvæmdum og vinnu við ýmis framfaramál í héraði.
En allt er í heiminum hverfult. Árið 2004 bárust þau skilaboð að nú ætti að hætta að slátra á Klaustri og þar með lagðist þessi starfssemi niður. Stórir fjárflutningabílar flytja sláturfé úr sveitunum milli sanda á Selfoss eða Höfn í Hornafirði. Sláturhúsið og frystihúsið stóðu auð í nokkur ár en hafa nú verið gerð upp og er þar starfrækt ferðaþjónusta.
Áætlunarflug á Kirkjubæjarklaustri
Það var flugvöllur á Stjórnarsandi og þangað var flogið áætlunarflug í nokkur ár um miðja síðustu öld. Flugfélag Íslands og Loftleiðir voru með áætlun á Klaustur. Þegar vegasamgöngur bötnuðu fækkaði farþegum og flugið lagðist af.
Hús Kaupfélags Vestur-Skaftafellssýslu á Kirkjubæjarklaustri sem var reist 1937 úr efni sem að hluta til kom úr verslunarhúsinu við Skaftárós. Hér er sennilega ungmennafélagsferð. (Eig. KJ/JJ)
Sláturhúsið á Klaustri og bílaflotinn. (Eig. LS)
[1] Helgi Lárusson. 1995 (endurprentun frá 1930). Vestur-Skaftafellssýsla og íbúar hennar. Kornið forlag, Rv. s. 219
[2] Elín Anna Valdimarsdóttir. 2004. „Póst og símaþjónusta á Kirkjubæjarklaustri.“ Dynskógar 9 V-skaft vík…. s. 278-282
[3] Sigurjón Einarsson. 2004. Dynskógar 9. s. 63
[4] Kjartan Ólafsson. 1991. Verslunarsaga Vestur-Skaftfellinga. II. bindi. s. 277-278