Skip to main content
Skaftártungasögur

Kirkjur í Skaftártungu

By October 18, 2019March 22nd, 2020No Comments

Í Skaftártungu er sóknarkirkjan í Gröf. Fyrir aldamótin 1900 voru tvær kirkjur í Skaftártungu, önnur á Búlandi og hin í Ásum þar sem prestsetrið var líka. Kirkjugarðar voru á báðum stöðum og má sjá kirkjugarðinn niður við Eldvatnið hjá Ásum. Brýtur áin af garðinum á hverju ári. Kirkjurnar voru sitt í hvorum enda sveitarinnar sem var heppilegt því sveitin er stór en með breytingunni var ákveðið að hafa eina kirkju í miðri sveit og henni valinn staður í Gröf. Kirkjan stendur enn og hefur verið vel við haldið. Kirkjusmiðurinn var Samúel Jónsson sem einnig teiknaði kirkjuna og var hún vígð 1898. Samúel var frá Hunkubökkum, faðir Guðjóns Samúelssonar. Ásaprestakall var sameinað Kirkjubæjarklaustursprestakalli 1. jan 2001 og eftir það hefur ekki búið prestur í Skaftártungu og aðeins verið einn prestur í sveitunum milli sanda.

Á myndinni hér fyrir neðan eru Skaftártungumenn á sólardegi við kirkjuna í Gröf (Ljósm LM). Á hinni myndinni eru Brian Haroldsson og Margrét Bóasdóttir í kirkjugarðinum á Ásum, þar sem áður stóð kirkja. (Ljósm. IH)

Norðan við Búland, á Búlandsheiði, er talið að hafi verið þriðja kirkjusóknin með 12 bæjum og hét Tólfahringar (oft nefnt Tólfahringur). Sveinn Pálsson segir svo frá í Ferðabók sinni:

Norður þaðan liggur Búlandsheiði svonefnd. Hún er afrétt, en áður lá þar heil kirkjusókn með 12 bæjum og hét Tólfahringur. Hann eyddist að miklu í plágunni 1402, en jafnframt hafa Kötlugosin ausið yfir hann sandi og vikri, sem sagt er, að myndi meira en þriggja álna þykkt lag sums staðar á þessu svæði. Kirkjan á að hafa staðið að Réttarfelli. Það er almenn sögn, að þar hafi verið 18 hurðir á hjörum, og má af því marka húsakostinn. [1]

Sr. Jón Steingrímsson var samtímamaður Sveins og taldi hann þessa byggð hafa eyðst 1112 og þá af miklu öskufalli.

Gjóska frá Kötlugosum hefur ítrekað lagst yfir þetta svæði og því líklegt að rústirnar séu ekki auðfundnar en fyrir fornleifafræðinga er þarna spennandi verkefni.[2]

[1] Sveinn Pálsson. MCMXLV. Ferðabók Sveins Pálssonar. Snælandsútgáfan, Rv. s. 259-260

[2] Jón Steingrímsson. 1907-1915. „Skýrslur um Skaptárgosin.“ Safn til sögu Íslands og íslenskra bókmennta að fornu og nýju. Hið íslenska bókmenntafélag, Kaupmannahöfn og Reykjavík. s. 53