Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1
Spítalaskipið var glæsilegt skip — Sögur, menning og náttúra Skip to main content
Meðallandsögur

Spítalaskipið var glæsilegt skip

By October 18, 2019January 7th, 2021No Comments

Þann 4. apríl 1899 var franska spítalaskipið St. Paul úti fyrir Meðallandi á leið vestur. Það var mikill sjór og  skipið hafði hrakið nærri landi. Skipið var þá rétt fyrir austan Kúðaós. Meðan skipið barðist í brimgarðinum biðu skipverjar þess sem verða vildi, þeir héngu í reiðanum og horfðu á hvernig brimið skolaði öllu lauslegu af dekkinu. Þegar sjómennirnir greindu ströndina, bjuggu þeir sig undir að yfirgefa skipið. Ungur háseti kastaði sér til sunds með kaðal bundinn um sig og tókst að ná landi. Síðan var útbúinn björgunarstóll og skipverjar fikruðu  sig eftir kaðlinum í land. Þeir biðu í fjörunni nokkra stund því þeir vissu ekki hvar þeir voru eða hversu langt var til byggða. [1]

Þriðja vertíðin – annað strandið

Skipið, sem var þrímastra seglskip með litla hjálparvél, var nýkomið á miðin með 20 manna áhöfn og átti að veita frönskum sjómönnum hvers konar hjálp og læknisaðstoð á fiskimiðunum við Ísland en skipið var frá Le Havre í Frakklandi. Þetta var þriðja vertíðin sem skipið sigldi á Íslandsmið. Áhöfnin hafði aðstoðað fjölda sjómanna árin áður og var mikil ánægja sjómanna og fjölskyldna þeirra með þessa læknisþjónustu sem sjálfboðaliðasamtök í Frakklandi höfðu barist fyrir. Þess má geta að í fyrstu ferð til Íslands vorið 1897 hafði St. Paul lent í erfiðleikum við Íslandsstrendur. Skipið hafði rekið upp í klettana hjá Klöpp í Reykjavík en náðst út aftur.

Meðallendingar bregðast skjótt við

Þennan morgun, þegar fólk fór á fætur á Rofabæ í Meðallandi og horfði til hafs blasti við seglbúið skip. Á Rofabæ bjó hreppstjórinn, Ingimundur Eiríksson, dannebrogsmaður. Í skyndi var sent til næstu bæja til að fá fólk með til strandar. Hver mínúta gat verið dýrmæt og því varð að hafa hraðann á. Margir hópar stefndu til sjávar og í einum þeirra var prestur Meðallendinga, séra Gísli Jónsson í Langholti. Hann var frönskumælandi og gaf sig strax á tal við skipbrotsmenn.

Gengið til bæja

Nú var undirbúin ferð til bæja með skipverja en fjórir vaktmenn voru valdir úr hópi björgunarmanna til að gæta strandsins. Svo þreyttir voru skipbrotsmenn að haft var eftir Hjörleifi í Sandaseli að: Þeir hefðu helst allir viljað fara á bak hestunum í einu og hann varð að draga þá af baki svo aðrir gætu hvílt sig líka. [2]   Sautján skipbrotsmenn urðu eftir hjá hreppsstjóra en þrír fóru með séra Gísla að Langholti. Á þessum bæjum dvöldu þeir þar til þeir voru fluttir til Reykjavíkur.

Sýslumaður mætir

Að venju var sendur hraðboði á fund sýslumannsins sem á þessum tíma var Guðlaugur Guðmundsson á Kirkjubæjarklaustri og klukkan sex næsta morgun, lagði sýslumaður af stað suður í Meðalland. Skipstjóri var harmi sleginn yfir örlögum skipsins en sýslumaður og hreppsstjóri bentu strax á að mikilvægast væri að hefja björgun lauslegra muna því Kúðaósinn var óðum að færast í átt að skipinu. Undirritaði skipstjóri ákvörðun sýslumanns að uppboð skuli haldið á öllu góssinu svo fljótt sem unnt var. Uppboðið var ákveðið hinn 12. apríl og var auglýst frá Skeiðarársandi og alla leið að Markarfljóti. Vaktmenn við skipið gerðu sér skýli úr tunnum, trjám og fleiru og breiddu segl yfir.Þetta var kallaður “Skansinn” og var borið inn í þetta skýli allt smávegis og það sem síst mátti blotna af því sem bjargað var. Gert var op á síðu skipsins og öllu sem mögulegt var bjargað gegnum opið. Meðal þess sem bjargaðist var: Hveiti, kex “í stórum kössum”, vín í tunnum, kaffi, sykur, te, laukur, ávextir og grænmeti. Auk þess borð, bekkir, skápar, púlt, borðbúnaður, eldhúsáhöld og verkfæri. Meðal fágætari hluta var mikið af helgimyndum, mest gipsmyndir en einnig úr tré eða marmara. Timbur, segl og fleira auk vélbáts var meðal “góssins”. Svo mjög voru menn hrifnir af öllum búnaði að einn bóndi lýsti skipinu þannig: “Það er allt logagyllt stafna á milli frá borðstokki að kili!”[3]

Hér er líkan að spítalaskipinu sem Karl í Vík gerði. Það er ekki undarlegt að Meðallendingum hafi fallist hendur yfir fegurð skipsins. 

Uppboð í fjörunni

Þar sem sýslumaður átti von á fjölda fólks á uppboð og aðstæður í fjörunnni nöturlegar ef veður yrði vont, auk þess sem matarbirgðir og heyforði Meðallendinga var á þrotum, ákvað sýslumaður að fá tuttugu Meðallendinga til að reisa birgi á fjörunni úr trjám og slá seglum yfir. Í birginu gat fólk leitað skjóls og kom það sér vel því fólk streymdi að. Yfir 300 manns mættu á uppboðsstað á um það bil 380 hestum. Sýslumaður hóf síðan uppboð klukkan hálftíu og stóð það í tvo daga. Ekki er gott að segja um það hvaða verð fékkst fyrir öll þau verðmæti sem þarna voru til sölu en ljóst er að skipið sjálft fór á afar lítinn pening. Sýslumaður sagði að lágmarksboð væri 800 krónur en skipið fór á 150 kr.

Björgunarlaun

Þó að uppboðinu væri lokið á strandstað var enn nokkuð óselt, t.d. fatnaður, rúmföt, segl og fleira sem flutt hafði verið að Rofabæ til að skapa skipbrotsmönnum sem bestan aðbúnað. Þetta seldi sýslumaður að afloknu manntalsþingi hinn 2. júní. Þeir sem unnu við strandið eða vistuðu skipverja fengu allir einhver laun fyrir. Vafalaust hafa þær krónur verið kærkomnar á fátæk heimili í Meðallandi og varla verið ofborgað fyrir mikið erfiði við björgun úr Sankti Páli á þessum nístingsköldu apríldögum 1899.

Ekkert spítalaskip – engin læknisaðstoð

Spítalaskipið bætti mjög aðstæður franskra sjómanna við Ísland sem höfðu fagnað því að geta leitað lækninga á langri vertíð. skipið Strand þess var því mikið áfall.  Myndin hér að ofan sýnir St. Pierre sem var eins útlits og St. Paul. Skipið var mjög vel búið og fjöldi sjómanna hafði þegið þjónustu um borð þegar það fórst en þetta haust er talið að hafi verið 4000 franskir sjómenn á veiðum við Ísland.[4] Önnur spítalaskip voru send á Íslandsmið nokkrum árum síðar, bar annað þeirra nafnið Heilagur Franz frá Assissi og seinna kom Santa Maria. Í byrjun 20. aldar byggðu Frakkar spítala fyrir sjómennina á Fáskrúðsfirði , Vestmannaeyjum og Reykjavík og eftir því sem starfsemi þeirra efldist var ekki lengur þörf fyrir spítalaskip.[5]

Munir úr skipinu

Muni úr spítalaskipinu má sjá í kirkjunni á Langholti í Meðallandi og Þykkvabæjarklausturskirkju í Álftaveri. Einnig má sjá gripi úr St. Paul á bæjum í Skaftafellssýslum og á Minjasafninu á Skógum.

[1] Ingimundur Ólafsson. 1990. Franska spítalaskipið Sankti Páll strandar á Koteyjarfjöru í Meðallandi 4. apríl 1899. Dynskógar 5, Vestur -Skaftafellssýsla, s. 87-116

[2] Friðrik Á Hjörleifsson. 1968 “ Spítalaskip strandar hjá Kúðaósi á páskunum 1899” Skaðaverður 1897-1901. Barnablaðið Æskan, Rv. s. 95

[3] Ingimundur Ólafsson. 1990. Franska spítalaskipið Sankti Páll strandar á Koteyjarfjöru í Meðallandi 4. apríl 1899. Dynskógar 5. Vestur -Skaftafellssýsla, s. 97

[4] Elín Pálmadóttir. 1989. Fransí biskví. Frönsku Íslandssjómennirnir. Almenna bókafélagið, Rv. s. 17

[5] Elín Pálmadóttir. 1989. Fransí biskví. Frönsku Íslandssjómennirnir. Almenna bókafélagið, Rv. s. ,177-193