Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/class-wp-term-query.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1

Warning: Uninitialized string offset 0 in /var/www/virtual/eldsveitir.is/htdocs/wp-includes/html-api/class-wp-html-tag-processor.php on line 1
Þorlákur helgi — Sögur, menning og náttúra Skip to main content
Álftaversögur

Þorlákur helgi

By October 18, 2019February 28th, 2020No Comments

Þorlákur helgi var prestur á Kirkjubæ og ábóti á Þykkvabæ 

Þorlákur var fæddur í Fljótshlíðinni, ólst upp á Odda og stundaði nám í Evrópu. Að námi loknu varð hann prestur á Kirkjubæ á Síðu, seinna kanoki og ábóti í klaustrinu á Þykkvabæ í Veri og tók þátt í stofun nunnuklausturs á Kirkjubæ.

Þorlákur helgi er eini íslenski dýrlingurinn. Það var leyfilegt að heita á hann og sögur segja að það hafi borið árangur, menn fengu hjálp eða lækningu fyrir tilstilli hins helga manns. Bein hans voru tekin upp 20. júlí, sem er Þorláksmessa á sumri, og kistunni komið fyrir þannig að menn áttu auðvelt með að snerta hana og urðu af því margir sjúkir menn heilir heilsu. Var lík Þorláks bjartara yfirlitum en annarra og ilmaði svo dýrlega að slíkt höfðu menn ekki áður fundið.

Helgi Þorláks var viðurkennd 1199 og dánardægur hans, 23. desember, lögleiddur sem messudagur. Þorlákur var lítillátur, lifði fábreyttu lífi, iðkaði vökur, bænir og föstur, sýndi umhyggju fátækum og var ókvæntur. Hann barðist ötullega fyrir réttindum kirkjunnar og þjónaði henni alla sína ævi. Hann hagaði sér sem helgur maður á allan hátt og var rétti maðurinn til að gera að dýrlingi. Loksins gátu Íslendingar heitið á íslenskan dýrling og áheitin urðu þá eftir hér hjá kaþólsku kirkjunni en áður hafði mikið fjármagn farið úr landi vegna áheita, til dæmis á Ólaf helga í Noregi.[1]

Æska og menntun Þorláks

Þorlákur var fæddur 1133 að Hlíðarenda í Fljótshlíð þar sem fjölskylda hans bjó. Einhverra hluta vegna leystist heimilið upp og Þorlákur fór með móður sinni að Odda á Rangárvöllum sem þá var mikið menningarsetur. Tekið er fram í sögunni að móðir hans hafi kennt honum það sem hún kunni um ættvísi og mannfræði. Veltir maður fyrir sér hvar hún hafi lært þau fræði og hvað nákvæmlega fólst í þeim greinum. Þorlákur stundaði nám í Odda og 18 ára var hann vígður til prests. Það mátti ekki vígja svo unga menn en prestaskortur var í landinu sem hefur ef til vill haft áhrif á vígsluna. Þorlákur fór til Parísar og síðar til náms í Lincoln í Englandi og var alls sex ár. Þegar hann kom heim varð hann prestur á Kirkjubæ á Síðu í sex ár en fór þá að Þykkvabæ í Álftaveri 1168 þar sem hann gerðist kanoki í fyrsta íslenska Ágústínaklaustrinu og var orðinn ábóti þegar hann, nokkrum árum síðar, var valinn biskup í Skálholti. [2]

Þorlákur var prestur á Kirkjubæjarklaustri, tók þátt í stofnun klaustursins þar og leit sömu jökla og við sjáum í dag (Ljósm LM)

Þorláks saga helga

Saga Þorláks helga er skrifuð af samtímamanni hans og markmið sögunnar er að sýna að Þorlákur sé þess verður að vera tekinn í helgra manna tölu. Mikill hluti sögunnar segir frá baráttu Þorláks fyrir lögum kirkjunnar “lögum guðs”. Var helsti andstæðingur hans Jón Loftsson í Odda. Jón hafði tekið sér systur Þorláks, Ragnheiði, sem frillu. Verða deilur Þorláks og Jóns hatrammar og andstyggilegar fyrir alla. Jón og Ragnheiður slitu sambandi sínu en sonur þeirra Páll Jónsson varð eftirmaður Þorláks í Skálholti. Sá sami Páll biskup leyfir áheit á Þorlák. [3] Fámennið og fjölskyldutengslin hafa valdið ýmsum flækjum á þessum tíma rétt eins og nú á okkar dögum.

Sagan líkist mjög helgisögum sem til eru í öðrum löndum en þó er sérstakt að sagan er skrifuð bæði á latínu og íslensku. Í upphafi er sagt frá fæðingu Þorláks, foreldrum, námi hans í Odda, prestsvígslu og utanför. Margar skemmtilegar lýsingar eru í sögunni. Grípum aðeins niður í 6. og 7. kafla sögunnar þar sem sagt er frá veru Þorláks í Kirkjubæ, þar sem hann er prestur ásamt öðrum dýrðlegum manni, Bjarnhéðni.

Var þá bæði að eykirnir [þeir Þorlákur og Bjarnhéðinn] voru sterkir fengnir undir okið enda báru þeir léttlega af því að þeir tóku þá nálega allan vanda að bera fyrir því fólki öllu er þau héruð byggðu er þeim voru nálæg. Skiptu þeir og svo við sína undirmenn að þeir tóku af þeim þungar byrðar er á þá höfðu lagst af mótgerðum og meinmælum við guð og góða menn, en eftirlæti við fjandann, en lögðu á þá í staðinn guðs byrðar, léttar og linar, í hógbærum skriftum og auðveldum yfirbótum. s.124

Það hefur ekki verið amalegt að vera sóknarbarn þessara ágætu presta. En Þorlákur var kallaður til annarra verka.

Þorlákur var ábóti á Þykkvabæjarklaustri og seinna biskup í Skálholti. Mýrdalsjökull blasir við í Álftaverinu. (Ljósm LM)

Þorlákur yfirgefur Kirkjubæ með trega og flytur í Álftaverið

Upphafsmaðurinn að stofnun klausturs í Álftaveri var Þorkell Geirason, auðugur maður í Álftaveri.

Hann [Þorkell] fór þá í Kirkjubæ og skoraði á Þorlák að hann réðist til en hann lét það ekki alltorsótt við sig vera af því að hann hafði það áður í hug sér haft að hafna heimi og ráðast undir regulu eftir orðum almáttigs guðs er hann kallar öngan að fullu mega vera sinn lærisvein nema hann láti alla sína eign fyrir guðs sakir og þjóni honum þá síðan með hreinum hug.

En þó leitaði hann eftir við Bjarnhéðin prest hversu honum mætti það í skap falla eða hver ráðlegt honum sýndist að hann játaðist undir þann vanda er hann var beiddur. En Bjarnhéðinn sagði svo að honum mundi sá dagur mikill þykja, er Þorlákur réðist úr Kirkjubæ að vistafari, en þó lést hann eigi þess nenna [vilja, langa] mjög að letja er hann sá margra manna hjálp við liggja.

Var þá síðan staður settur í Þykkvabæ að ráði og forsjá Klængs biskups og allra héraðsmanna og síðan réðst Þorlákur þangað og var þar þá sett kanokasetur.

En þann dag er Þorlákur fór á brott alfari úr Kirkjubæ þá leiddi alþýða manna hann úr garði og þótti öllum mikið fyrir að skiljast við hann. […]

Var sú og Þorláks umræða alla ævi síðan, er bæði var í gæfa staðnum og þeim er fyrir réðu, að hann hefði aldrei sínu ráði jafnvel unað sem þá sex vetur er hann var í Kirkjubæ og hefur mörg stór virðing til þess staðar lagst og var sjá mikil af því að það má líklegt þykja að þar muni best að flestu verið hafa er hann undi sér best.

Þá var Þorlákur vel hálffertugur, er hann réðist í Ver, og var þar sjö vetur. Kanokavígslu tók hann fyrst og var þá í fyrstu príor settur [yfirmaður klausturs, aðstoðarmaður ábóta] yfir þá kanoka er þar voru og samdi hann þegar svo fagurlega þeirra líf að á því lék þá orð vitra manna að þeir hefðu hvergi jafngóða siðu séna þar er eigi hafði lengur regululíf saman verið en þar. En eftir það vígði Klængur biskup Þorlák til ábóta í Veri og tók hann þá af nýju merkilega stjórn að hafa yfir þeim bræðrum er hann var yfir settur. Hann bauð þeim að halda ástúð og samþykki sín á milli og tjáði það fyrir þeim hve mikið í keyptist er sonurguðs segir svo, að hvar sem saman safnast tveir eða þrír í hans nafni að hann mundi þeirra á millum vera. Var hann um allt hinn siðvandasti fyrir þeirra hönd, enda var þeim hversvetna vel tekið. [4]

Dýrlingurinn Þorlákur

Saga Þorláks er rakin allt þar til hann deyr en eftir það er skráð safn jarteina, eða sagna sem sýna hvers Þorlákur var megnugur eftir dauðann. Það eru hin ýmsustu bænarefni sem menn bera upp og sýna þau vel það samfélag sem var á Íslandi um 1200. Hér eru nokkrar jarteinir:

Hústrú ein góð tók enn augnaverk mikinn og hét á Þorlák biskup og varð hún þegar heil. s. 170

Í stórum vatnavöxtum töpuðust kistur tvær, önnur full með járn og smíði en önnur með klæði. Sá hét, er kisturnar átti, á Þorlák biskup og fundust kisturnar óspilltar og allt það er í var. s. 172

Í einum stað komu menn að ófæru vatni og komust þeir yfir með heilu, er á Þorlák biskup hétu, en hinir eigi er öngu hétu. S 172

Maður galt fátækum manni blindan sauð og vildi eigi um bæta þá er hinn fann að, hinn fátæki maður hét á Þorlák biskup og varð sauðurinn skyggn. s. 174

Þá er Páll biskup lét hið fyrsta sinn upp lesa jarteinir Þorláks biskups á alþingi fékk blindur maður sýn en daufur maður heyrn er þá voru viðstaddir. s. 175

Það er margt sem plagar menn á þessum tímum og ólík bænarefni sem fólk sendir Þorláki; augnverkur, töpuð kista, ófær á, blindur sauður og blindur maður. Tókst að bæta úr flestu eftir því sem sagt er í upptalningu á jarteinunum og bæði sauðurinn og maðurinn fá sýn.

Þorlákur helgi dvaldi á Kirkjubæjarklaustri og Þykkvabæajarklaustri og leit þá sömu fjöll og jökla og við sjáum í dag. Hvað hugsaði hann? Hreifst hann af fegurð Öræfajökuls á haustmorgnum og glæsileika Mýrdalsjökuls í ljósaskiptunum á kvöldin?

Kristskirkja. Landakotskirkja í vesturbæ Reykjavíkur. (Ljósm. ABS)

Þorlákur Þórhallsson biskup er eini helgi maðurinn sem Íslendingar eiga og  í  janúar 1984 gaf Jóhannes Páll páfi II út tilskipun þess efnis að hann hefði valið Þorlák helga verndardýrling Íslands.

Það er áhugavert að skyggnast inn í heim kaþólskra og dýrlingatrú þeirra og gott að hugsa til Þorláks þegar við sporðrennum þefmikilli skötunni á Þorláksmessu eða þegar við erum á Kirkjubæjarklaustri eða Þykkvabæjarklaustri, þar gekk Þorlákur fyrir rúmum 800 árum. Klaustrin voru mikil menningarsetur og Skaftárhreppur er eina sveitarfélagið á Íslandi sem getur státað af tveimur klaustrum.

[1] Þorláks saga helga. 1989. Ásdís Egilsdóttir sá um útgáfuna. Þorlákssjóður, Reykjavík. S. 9-14

[2] Gunnar Friðrik Guðmundsson. 1999. “Þorlákur helgi í sögu og samtíð”. Dynskógar 7. Sögufélag Vestur-Skaftfellinga, Vík s. 43-46

[3] Þorláks saga helga. 1989. Ásdís Egilsdóttir sá um útgáfuna. Þorlákssjóður, Reykjavík. S. 9-52

[4] Þorláks saga helga. 1989. Ásdís Egilsdóttir sá um útgáfuna. Þorlákssjóður, Reykjavík. S. 124-128